Prentaður takki fyrir standborvél

From Fab Lab Wiki - by NMÍ Kvikan
Jump to: navigation, search

Project date: March 2014

Design made by: Svavar Konráðsson

Design printed at: FabLab Reykjavík

Interesting link: Youtube: Teikna takka í InventorPrentaður takki fyrir standborvél

Image06.jpg Image03.jpg

Takki á standborvél í vinnunni brotnaði og í staðinn var sett töng, til bráðabirgða. Vélin er mikið notuð og þetta er frekar óþægilegt fyrirkomulag. Ég sá tækifæri til að prófa að þrívíddarprenta í FabLab, svo að ég teiknaði nýjan takka.


Image00.jpg

Ég mældi tittinn sem takkinn fer upp á, hann er 6,4 x 6,4 mm og 19 mm langur. Ég setti þessi mál beint inn í teikninguna af takkanum og vonaðist eftir að hann passaði þétt upp á. Gatið reyndist vera of þröngt. Bölvað. Þegar þú vilt að hlutir passi þétt saman þá mæli ég með að prenta út litla prufu frekar en allan hlutinn. Maður veit aldrei nákvæmlega hvernig prentarinn er stilltur.


Image02.jpg

Ég hafði holað takkann að innan og teiknað rif til að styrkja hann. Þetta kom alveg sæmilega út en Bas benti á að ég þarf ekki að gera þetta handvirkt. Þegar maður setur gegnheilan hlut inn í MakerBot forritið þá sér það um að hola hann að innan og búa til styrktarstrúktúr. Þetta þýðir að maður notar miklu minna plast og hluturinn verður samt sterkur.

Vegna þess að ég reyndi að gera þetta sjálfur kom ysti veggurinn skringilega út. Ég hafði notað 1 mm veggþykkt, en það er örlítið meira en tvöföld þykkt plastlínunnar sem prentarinn leggur niður. Afleiðingin var að hann lagði niður tvær línur með örlitlu bili á milli, svo að veggurinn varð mjög veikur.


Image04.jpg

Takkinn var líka of stór og klunnalegur í laginu, svo að ég nýtti tækifærið til að endurhanna hann. Bas benti mér á að nota svart PLA plast í þetta skiptið. Ég hafði hugsunarlaust prentað í litnum sem var í prentaranum (hvítu ABS), en hvítur takki passar illa við standborvélina. Nú kann ég að skipta um plastrúllu í MakerBot Replicator 2 (það er ekkert mál).


Image01.jpg Image05.jpg

Svarti takkinn tollir á sínum stað án þess að nota lím. Það er af því að ég teiknaði tvær fjaðrir sem svigna þegar takkinn er settur upp á tittinn. Spennan í fjöðrunum kemur í veg fyrir að takkinn detti af. Hér er myndband sem sýnir hvernig ég teiknaði svarta takkann: YouTube: Teikna takka í Inventor

Að prenta út tvo takka kostaði meira en að kaupa nýjan takka (ég veit reyndar ekki hvar ég ætti að fá takka fyrir gamla Suður-Kóreska standborvél) en það er miklu skemmtilegra að búa hann til sjálfur og læra á þrívíddarprentarann.