Fab Lab Wiki:Um Fab Lab
Fab Lab er stafræn smiðja þar sem almenningi gefst færi á að komast í tæri við nýjustu tækni og alþjóðlegt samfélag frumlegra hönnuða og sérfræðinga á öllum sviðum vísinda til þess að geta hannað og búið til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðja er stundum kölluð framköllunarstofa hugmynda.
Hvað er Fab Lab smiðja?
Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.
Fyrir hverja er Fab Lab smiðjan?
Fab Lab smiðjan er ætluð frumkvöðlum, nemendum, almenningi, fyrirtækjum og stofnunum.
Markmið
Markmið smiðjunnar er að auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og að efla nýsköpun á Íslandi. Þá er smiðjunni ætlað að auka tæknilæsi almennings og almenna tæknivitund. Markmið smiðjunnar eru enn fremur að skapa vettvang fyrir nýsköpun og að efla samkeppnishæfni iðnaðarfyrirtækja, menntastofnana og nemenda. Með þessum hætti er stuðlað að nýsköpun og möguleikar skapast á aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu.
Tækjabúnaður
Búnaðurinn í Fab Lab smiðjunni er aðgengilegur almenningi undir leiðsögn sérfræðinga Nýsköpunarmiðstöðvar og annara. Rafeindabúnaður, tölvur og ýmis konar tölvustýrður búnaður er í smiðjunni eins og t.d. fræsivélar, vinylskerar og laserskurðartæki. Til viðbótar þessu er safn af rafeindaíhlutum og forritunartólum sem einfalda notendum smiðjunnar að gera það sem þeir vilja. Með búnaði Fab Lab smiðjunnar er hægt að gera ýmist tvívíða eða þrívíða hluti allt frá einföldum minjagripum upp í flóknar tölvur smíðaðar frá grunni.
Hér að neðan eru upplýsingar um tækjabúnað í Fab Lab smiðjunni í Eyjum, Ísafirði og á Sauðárkróki:
- Epilog Laser Cutter, Mini 24" x 12" 35W (40W á Sauðárkróki og Ísafirði)
- Roland Vinyl/Circuit cutter, GX-24
- Roland NC Milling Machine, MDX 20
- Shopbot PRSalpha CNC Router (3.05x1.52x .15m)
Smiðjan er tengd öðrum Fab Lab smiðjum í gegnum fjarfundabúnað. Smiðjan er með Polycom,V500 fjarfundabúnað
Fræsitennurnar í Fab Lab smiðjunni í Eyjum sem eru notaðar fyrir Shopbot eru frá Onsrud og innihalda staðal pakkann sem shopbot mælir með og samanstendur af nokkrum stærðum, m.a. 1/4", 1/2", 1 1/4" kúluendabita, einn 1" v-carve bita, og einnig flatenda bita 3 stk af 1/4" og 1 stk 1/8".
Fyrir minni fræsivélina frá Roland eru fræsitennur frá 1/4" niður í 1/64" og allir eru þeir úr AlTiN. Varðandi notkun á tækjum þá eru þau ætluð öllum sem fá tilhlýðilega þjálfun. (réttindi til notkunar eða réttindi til kennslu)
Samstarf
Árið 2008 voru 36 Fab Lab smiðjur um allan heim eins og t.d. í Bandaríkjunum, Spáni, Hollandi, Noregi, Indlandi, Afganistan, Suður Afríku og á Íslandi í Vestmannaeyjum. Árið 2010 opnaði Fab Lab smiðja á Akranesi og stefnt er á að opna einnig á Sauðárkróki veturinn 2010. Samstarf milli þessara smiðja er náið og er Fab Lab smiðjan í Eyjum tengd í gegnum fjarfundabúnað við aðrar smiðjur auk þess sem unnið er að miðlun upplýsinga milli smiðjanna. MIT háskólinn í Boston leiðir verkefnið áfram.